Notkun tannþráðs og annarra tækja til að hreinsa á milli tanna

Það er ekki nóg að bursta tennurnar tvisvar á dag ef viðhalda á góðri tannheilsu. Miklvægt er að hreinsa á milli tannanna einu sinni á dag með tannþræði eða öðrum tannhreinsibúnaði, svo sem millitannaburstum og tannstönglum.

Tannþráðinn þarf að nota jafnt á barna- og fullorðinstennur. Tönnin hefur fimm hliðar. Með tannburstanum er hægt að hreinsa þrjár þeirra. Hinar tvær þarf að hreinsa daglega með tannþræði. 

Hvernig á að nota tannþráð?

Gott er að taka hæfilega langan bút af tannþræði og vefja um hægri og vinstri vísifingur. Nauðsynlegt er að hafa hann stuttan á milli fingranna svo auðveldara sé að stjórna þræðinum. Þráðurinn fer á milli tannanna, alveg niður undir tannholdið en þétt upp við tönnina. Tannþráðurinn er færður upp og niður eftir tönninni, fyrst öðru megin tannbilsins og síðan að aðliggjandi tönn hinu megin. 
Gott er að byrja alltaf á sama stað svo ekkert tannbil gleymist. Ef blæðir frá tannholdi eru það fyrstu merki um tannholdsbólgu og því er nauðsynlegt að hreinsa enn betur.

Á vef Landlæknisembættis má finna myndskeið sem sýnir rétta notkun á tannþræði. 

 

Myndskeið um notkun tannþráðs af vef Landlæknisembættis. Heimild: Landlæknir.